Persónuverndarstefna

Strætó bs., Hesthálsi 14, 110 Reykjavík, er ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við notkun á KLAPPINU.

Þessi persónuverndarstefna gildir um alla þjónustu KLAPPSINS.


KLAPPIÐ smáforrit

KLAPPIÐ smáforrit er lausn þar sem viðskiptavinir Strætó geta keypt fargjöld, haldið utan um fargjöld sín, sent miða sín á milli og skannað/stimplað sig inn í Strætó.


KLAPPIÐ mínar síður

KLAPPIÐ mínar síður gerir viðskiptavinum kleift að fá enn meira út úr þjónustu Strætó. Með aðgangi að mínum síðum geta notendur keypt stök fargjöld og tímabilskort, fyllt á snjallkort sín, keypt og haldið utan um inneignir í KLAPP veski, nýtt sér afsláttarkjör eigi þeir rétt á því, sótt greiðslukvittanir, séð stöðuna á greiðslumiðlum sínum og skoðað yfirlit yfir notkun sína og viðskiptasögu. Með aðgangi að mínum síðum geta notendur einnig sent erindi í formi fyrirspurna og ábendinga sem tekin eru til afgreiðslu af þjónustufulltrúum Strætó.


Hvaða persónuupplýsingar er verið að vinna?

Strætó er nauðsynlegt að vinna með ýmsar persónuupplýsingar þínar í tengslum við notkun KLAPPSINS. Við söfnum persónuupplýsingum sem þú veitir beint, upplýsingum um hvernig þú notar þjónustu okkar og eftir atvikum upplýsingum frá þriðju aðilum í tengslum við sérstök afsláttarkjör af fargjöldum.

Þegar þú tekur smáforritið í notkun hefur þú val á milli nafnlausrar innskráningar eða að stofna aðgang með tengingu við símanúmer. Við skráningu á mínar síður þarftu ávallt að gefa upp símanúmer eða netfang.

Við kaup á vörum og þjónustu þarftu að skrá greiðslukortanúmer. Þá hefur þú val um að vista greiðslukortaupplýsingar þínar fyrir hraðari kaup. Í þeim tilvikum er kortanúmeri þínu skipt út fyrir svokallað sýndarnúmer (e. Token) en engin greiðslukortanúmer vistast í kerfum Strætó. Til að þú áttir þig á hvaða greiðslukort eru skráð hverju sinni birtast fyrstu sex og síðustu fjórar tölur greiðslukortsins ásamt gildistíma í KLAPPINU.

Strætó býður ýmsum hópum viðskiptavina sinna upp á sérstök afsláttarkjör, þ.m.t. örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum, námsmönnum og starfsmönnum fyrirtækja sem gert hafa samgöngusamning við Strætó. Eigir þú rétt á slíkum afsláttarkjörum þá munum við einnig vinna með þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að geta veitt þér þann afslátt. Slíkar upplýsingar eru þó eingöngu aðgengilegar Strætó hafir þú veitt samþykki fyrir miðlun þeirra hjá viðkomandi samstarfsaðila Strætó, s.s. vinnuveitanda þínum, skólanum þínum eða Tryggingastofnun Ríkisins. Strætó fær eingöngu upplýsingar um hvort þú eigir rétt á afslætti eður ei. Þá sækir Strætó upplýsingar um lögheimilisveitarfélag þeirra sem nýta sér námsmannaafslátt í Þjóðskrá, vegna samninga við sveitarfélög um veitingu slíks afsláttar. Öðrum upplýsingum er ekki aflað frá samstarfsaðilum.

Við kaup á fargjaldi eru vistaðar upplýsingar hjá Strætó um dagsetningu og tímasetningu viðskipta, tegund fargjalds og eftir atvikum afsláttarkjör, upphæð greiðslu og staðfestingu á greiðslu frá færsluhirðum. Í gegnum mínar síður hefur þú aðgang að yfirliti yfir eigin viðskipti og stöðu fargjalda. Auk þess að geta nálgast yfirlit yfir eigin viðskipti stendur þér til boða að fá greiðslukvittun á netfang þitt. Í þeim tilvikum sem þú nýtir þér þann möguleika þarftu að skrá upplýsingar um netfangið sem vistast hjá Strætó.

Þegar þú sendir okkur fyrirspurn, ábendingu, kvörtun eða annars konar erindi í gegnum mínar síður þá stofnast sjálfkrafa mál undir þér í viðskiptamannakerfi KLAPPSINS sem tekið er til afgreiðslu af þjónustufulltrúa Strætó.

Að öðru leyti en að framan greinir vinnur Strætó almennar upplýsingar um notkun þína á þjónustunni. Þannig eru aðgerðir þínar bæði skráðar og vistaðar með dagsetningu og tímasetningu, þ.m.t. kaup, virkjun, skönnun og áframsending fargjalda. Við skönnun fargjalda og byrðingu farþega eru jafnframt vistaðar upplýsingar um á hvaða stoppistöð þjónustan er nýtt.

Að auki kunnum við að vinna með aðrar upplýsingar um þig sem þú kýst að gefa upp í smáforriti, á mínum síðum eða í samskiptum við Strætó, s.s. fullt nafn, kennitölu, símanúmer, netfang og heimilisfang.

Strætó viðhefur eftirlit með réttri greiðslu fargjalda og hefur á grundvelli laga og reglna heimild til að beita fargjaldaálagi til samræmis við það og vinna þær persónuupplýssingar sem nauðsynlegar eru til að framfylgja þeim reglum. Í þágu framangreinds er unnið með upplýsingar um viðskiptavini, þ.e. nafn, kennitölu, auðkenni farmiðils og upplýsingaru um ástæðu þess að fargjaldaálagi er beitt.


Hver er tilgangur vinnslunnar?

Tilgangur vinnslunnar er fyrst og fremst að veita aðgang að vörum og þjónustu sem byggir á samningi milli þín og Strætó. Eins eru persónuupplýsingar unnar í þeim tilgangi að bæta vöruframboð og þjónustu við viðskiptavini. Þá er unnið með upplýsingar til að tryggja að notendur geti notið þeirra afsláttarkjara sem þeir eiga rétt á og að sinna eftirliti með réttri greiðslu fargjalda.

Strætó áskilur sér rétt til þess að útbúa ópersónugreinanlegar tölfræðilegar samantektir tengdar notkun á þjónustunni.


Vinnsluheimild

Vinnsla þeirra persónuupplýsinga sem nauðsynleg er vegna notkunar á KLAPPINU byggir á samningi við þig sem notanda, en við þurfum vissar upplýsingar til að þú getir nýtt þér KLAPPIÐ.

Þá eru upplýsingar um notkun þína á þjónustunni einnig nýttar til þess að betrumbæta og þróa þjónustu Strætó og eru það lögmætir hagsmunir Strætó að geta bætt þjónustu sína við þig.

Í þeim tilvikum er notendur vilja nýta sérstök afsláttarkjör á borð við örorkuafslátt eða námsmannaafslátt þá öflum við upplýsinga frá samstarfsaðilum okkar hafir þú veitt þeim samþykki fyrir slíkri miðlun. Öflun upplýsinga um lögheimilissveitarfélag námsmanna sem nýta sér afsláttarkjör vegna samninga við sveitarfélaög um slíkan afslátt byggir á lögmætum hagsmunum Strætó og er forsenda þess að Strætó geti boðið námsmönnum afsláttarkjör.

Persónuupplýsingar sem unnar eru í tengslum við eftirlit með greiðslu fargjalda og ákvarðana um fargjaldaálag byggir Strætó á heimild í lögum um farþegaflutninga og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra.


Miðlun persónuupplýsinga

Persónuupplýsingum um þig kann að vera miðlað til utanaðkomandi aðila, svo sem:

  • til samstarfsaðila Strætó, þ.e. Tryggingastofnunar Ríkisins, skólastofnana eða fyrirtækja sem gert hafa samgöngusamning við Strætó, sé það nauðsynlegt til að þú getir nýtt þér þau afsláttarkjör sem bjóðast viðskiptavinum Strætó,
  • til Samgöngustofu ef ákvarðanir Strætó um fargjaldaálag eru kærðar,
  • til fyrirtækja sem vinna með Strætó að framfylgni innheimtu. Komi til þessa undirgangast þessir aðilar trúnaðarskyldur vegna þeirra persónuupplýsinga sem veittar eru.

Öryggi persónuupplýsinga

Við þróun og rekstur kerfisins hefur verið gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að þau gögn komist ekki í hendur óviðkomandi, þeim verði ekki breytt, þau ekki eyðilögð eða að þau tapist. Þannig eru öll samskipti milli lausna og gagnagrunna dulkóðuð.

Strætó safnar ekki greiðslukortaupplýsingum og þannig er öryggi tryggt í kortaviðskiptum. Við skráningu á greiðslukortum verður til sýndarnúmer (e. Token) sem notað er í stað kortanúmers þegar greiðsla er framkvæmd. Raunverulegt kortanúmer er því aldrei notað í KLAPPINU sem eykur líkur á öryggi.

Öll samskipti milli KLAPPSINS og gagnagrunna eru dulkóðuð. Aðgangur að gagnagrunnum verður takmarkaður og rekjanlegur.

Strætó mun hér eftir sem hingað til beita viðeigandi ráðstöfunum til þess að vernda gögn sem unnið er með í tengslum við KLAPPIÐ og áframhaldandi þróun þess.


Þín réttindi

Þú átt rétt á að fá upplýsingar um þau gögn sem vistuð eru vegna notkunar á KLAPPINU, ásamt því að fá afhent eintak af slíkum gögnum.

Þú átt rétt á að fara fram á að rangar persónuupplýsingar séu leiðréttar og að upplýsingum sé eytt, eftir því sem lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn heimila. Þá áttu einnig rétt á því að mótmæla vinnslu persónuupplýsinga og óska eftir því að vinnsla þeirra sé takmörkuð. Þá áttu rétt á því að fara fram á að fá persónuupplýsingar þínar afhentar á tölvutækui formi, eða þær verði fluttar beint til þriðja aðila.

Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa Strætó með tölvupósti á netfangið personuvernd@straeto.is óskir þú eftir því að nýta einhver af réttindum þínum, viljir frekari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga eða til að koma á framfæri ábendingum sem varða hana.

Teljir þú að vinnsla persónuupplýsinga sé ekki í samræmi við lög sem um hana gilda getur þú sent erindi til Persónuverndar.